þriðjudagur, september 22, 2009

Fór í réttarkaffi í Sauðfjársetrið á sunnudaginn og hitti fullt af fólki sem gaman var að spjalla við. Kökurnar voru líka afbragð og sýningin sem sett var upp í tilefni dagsins var skemmtileg. Við Arnar og Kristinn Schram dunduðum við það föstudagseftirmiðdaginn.

Í gær lá síðan leiðin í menningarbæinn Ísafjörð í vinnuferð, fundir hjá Menningarráðinu. Við Arnar urðum samferða, skruppum í Bónus í leiðinni. Margt fróðlegt kom fram á fundunum að venju, en óvíst er með framhaldið á því verkefni og þar með vinnunni minni, það kemur líklega í ljós þegar fjárlögin koma út. Ég er nú alltaf jafn bjartsýnn.

Það á að skipta um vegnúmer á leiðinni suður Strandir, frá Hrútafjarðarbotni að Hrófá. Þar verður vegnúmerið 68 á Hólmavíkurvegi, en vegurinn um Arnkötludal heitir þá Djúpvegur 61 í staðinn. Þetta er óþægilegt fyrir ferðaþjónustuna hjá okkur, nú þarf að endurnýja allt kynningarefni og uppfæra vefi og nú þegar er of mikið um að ferðafólk ruglist á Kirkjubólunum í Strandabyggð og reyndar á Vestfjörðum öllum. Gömlu vegnúmerin verða auðvitað áfram á öllum útgefnum bæklingum og kortum, vegahandbókum, ferðabókum útlendinga o.s.frv., í að minnsta kosti áratug.

sunnudagur, september 20, 2009

Fór á fótboltaleik á Riis áðan - United og City 4-3. Þarna var hvíthærður eldri maður sem reifst stanslaust við dómarann og kallaði alla sem honum líkaði ekki við á skjánum hommatitti. Hann hélt með United. Öðrum þótti þessi hegðun frekar þreytandi.
Ljómandi erfið smalamennska í gær í frábæru veðri, náðum tæplega 400 kindum og pabbi átti þar af 45. Það var fjölmennt. Við smöluðum Steinadalinn, Nónfjallið og Norðdalinn. Pabbi, Nonni og Jakob fóru í fyrirstöðu við Holtagirðinguna og Lambagilið. Ester, Jón Valur og Sigfús í fyrirstöðu við steininn og líklega Svana og fleiri við Norðdalsána. Við fórum yfir Nónfjallið í Norðdalinn, ég, Arnór, Biggi, Ásdís og Arnar. Jón Gísli var uppi á brún. Á Steinadalnum voru Bjarki og Ási (vinir Þóris Magna), Árdís og Eiki. Gekk mjög vel og náðist næstum allt heim sem reynt var að ná.

Í dag er réttardagur í Kirkjubólsrétt og svo er réttarkaffi og opnun á myndasýningu í Sævangi sem er með réttarmyndum úr Skeljavíkurrétt í fyrra. Gaman að því.