þriðjudagur, september 22, 2009

Fór í réttarkaffi í Sauðfjársetrið á sunnudaginn og hitti fullt af fólki sem gaman var að spjalla við. Kökurnar voru líka afbragð og sýningin sem sett var upp í tilefni dagsins var skemmtileg. Við Arnar og Kristinn Schram dunduðum við það föstudagseftirmiðdaginn.

Í gær lá síðan leiðin í menningarbæinn Ísafjörð í vinnuferð, fundir hjá Menningarráðinu. Við Arnar urðum samferða, skruppum í Bónus í leiðinni. Margt fróðlegt kom fram á fundunum að venju, en óvíst er með framhaldið á því verkefni og þar með vinnunni minni, það kemur líklega í ljós þegar fjárlögin koma út. Ég er nú alltaf jafn bjartsýnn.

Það á að skipta um vegnúmer á leiðinni suður Strandir, frá Hrútafjarðarbotni að Hrófá. Þar verður vegnúmerið 68 á Hólmavíkurvegi, en vegurinn um Arnkötludal heitir þá Djúpvegur 61 í staðinn. Þetta er óþægilegt fyrir ferðaþjónustuna hjá okkur, nú þarf að endurnýja allt kynningarefni og uppfæra vefi og nú þegar er of mikið um að ferðafólk ruglist á Kirkjubólunum í Strandabyggð og reyndar á Vestfjörðum öllum. Gömlu vegnúmerin verða auðvitað áfram á öllum útgefnum bæklingum og kortum, vegahandbókum, ferðabókum útlendinga o.s.frv., í að minnsta kosti áratug.

1 ummæli:

Addi sagði...

Voðalega er þetta eitthvað formleg dagbók. Vantar bara veðurlýsingar.